Grænlensk landsstjórnin hefur gefið út 90.000 tonna makrílkvóta í grænlenskri lögsögu á þessu ári, þar af 85.000 tonn við A-Grænland og 5.000 tonn við V-Grænland. Til samanburðar má nefna að lokaúthlutun í fyrra var 100.000 tonn við A-Grænland og 10.000 tonn við V-Grænland. Alls veiddust 78.000 tonn á síðasta ári, allt við A-Grænland. Á vef landsstjórnarinnar kemur fram að alls hafi borist 48 umsóknir um makrílkvóta að þessu sinni, samtals um meira en 400.000 tonn.
Fyrirkomulag úthlutunarinnar er svipað og í fyrra. Meirihluti kvótans við A-Grænland eða 55.000 tonn skiptist milli útgerða sem hafa yfir eigin skipum að ráða en 30.000 tonnum var úthlutað til grænlenskra útgerða sem ekki eiga skip og þurfa að leigja þau.
Sem dæmi um úthlutun í fyrri flokknum má nefna að Polar Seafood gruppen sem gerir út Polar Amaroq og tvö önnur skip fær 12.000 tonn. Royal Greenland fær úthlutað 16.000 tonnum en innan vébanda þess eru fimm skip, þeirra á meðal Tasiilaq (ex Guðmundur VE) og Tuneq (ex Þorsteinn ÞH). Arctic Prime Fisheries fær 8.000 tonn fyrir tvö skip, en annað þeirra er Ilivileq (ex Skálaberg RE). Enoksen Seafood gruppen fær 4.000 tonn fyrir tvö skip, en annað þeirra er fyrrverandi Venus HF sem seldur var fyrirtækinu fyrir skemmstu.
Tekið er fram að úthlutunin sé til bráðabirgða og komi til endurskoðunar og/eða endurúthlutunar þegar í ljósi komi hvernig gangi að veiða kvótann.
Sjá nánar um úthlutunina á vef grænlensku landsstjórnarinnar, HÉR