Norðmenn ætla að verja 42 milljónum norskra króna (um 900 milljónum ISK) í markaðssetningu á sjávarafurðum innanlands. Um er að ræða þrjár mismunandi herferðir á vegum norska útflutningsráðsins til að auka sölu á fiski í sushi, hversdagsmat og jólamat. Vakin verður athygli á norskum sjávarafurðum með auglýsingum í sjónvarpi, prentmiðlum og á netinu.
Nú í september ætlar útflutningsráðið að beina sjónum sínum að sushi. Norðmenn keyptu rúmlega tvöfalt meira af sushi í fyrra en árið 2005. Útflutningsráðið ætlar að nýta sér þennan meðbyr með því að útvíkka sushineyslu Norðmanna, sem hingað til hefur aðallega farið fram í veitingahúsum, yfir í eldhús heimilanna.
Útflutningsráðið sér einnig vaxtarmöguleika með því að hvetja Norðmenn til að hafa fisk oftar á kvöldverðarborðinu heima. Spjótunum verður einkum beint að barnafjölskyldum og ungu sambýlisfólki. Ætlunin er að fræða þennan hóp um einfalda og spennandi fiskrétti.
Þriðja markaðsherferðin verður um jólahátíðina. Þá hittast vinir og ættingjar og setjast saman að veisluborðinu. Auglýstir verða girnilegir sjávarréttir sem hæfa þessu tilefni.