Lán sjávarútvegsfyrirtækja standa einna best í útlánasafni Íslandsbanka. Sjávarútvegurinn skuldar 130 milljarða í bankanum.
,,Það er ánægjulegt að geta skýrt frá því hér að lán til sjávarútvegsfyrirtækja standa miklu betur en útlán okkar til fyrirtækja í heild,” sagði Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka á aðalfundi LÍÚ.
Hvað sjávarútveginn varðar þurfa 84% sjávarútvegsfyrirtækja í viðskiptum við bankann enga eða litla aðstoð, 11% eru í endurskipulagningu og 5% munu ekki komast í gegnum brimskaflinn að því er talið er. .
Til samanburðar kom fram í máli Birnu að lán til fyrirtækja í heild hjá bankanum stæðu þannig að í 52% tilfellum þyrfti litla eða enga aðstoð að veita. 14% fyrirtækja væru í endurskipulagningu. Reiknað væri með að gjaldþrot blasti við 35% fyrirtækjanna en þar væri að langstærstum hluta um að ræða eignarhaldsfélög sem í sumum tilfellum væru með rekstrarfélög undir sem gengju vel.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.