Strandveiðar hófust í gær. Alls lönduðu 120 bátar afla í strandveiðikerfinu þennan fyrsta dag strandveiðitímabilsins. Ríflega helmingur þeirra , eða 72, voru á svæði A. Heildarafli dagsins var tæp 76 tonn af óslægðum afla og er uppistaðan þorskur, að því er fram kemur í frétt á vef Fiskistofu.
Á vef Fiskistofu er hægt að fylgjast með aflabrögðum í strandveiðikerfinu.
Fiskistofa hefur nú gefið út 360 strandveiðileyfi sem skiptast þannig eftir svæðum: Svæði A 173 leyfi, svæði B 46 leyfi, svæði C 53 leyfi, svæði D 88 leyfi. Nokkrar umsóknir eru í vinnslu.
Í reglugerð um strandveiðar árið 2011 er veiðisvæðum og magni á hverjum tímabili skipt svo:
Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 499 tonn í maí, 599 tonn í júní, 599 tonn í júlí og 299 tonn í ágúst.
Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 355 tonn í maí, 426 tonn í júní, 426 tonn í júlí og 213 tonn í ágúst.
Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess koma 231 tonn í maí, 307 tonn í júní, 538 tonn í júlí og 461 tonn í ágúst.
Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 419 tonn í maí, 366 tonn í júní, 157 tonn í júlí og 105 tonn í ágúst.