Áhöfnin á frystitogaranum Kleifabergi RE, sem Brim hf. gerir  út,  setti met í afla og aflaverðmæti í einni veiðiferð nú í maímánuði sem sennilega verður erfitt að slá. Á tuttugu og níu og hálfum degi veiddi skipið 1.900 tonn miðað við fisk upp úr sjó og aflaverðmætið nemur 736 milljónum króna, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag. Aflann fékk skipið í rússnesku lögsögunni í Barentshafi.

Meðan á veiðiferðinni stóð þurfti Kleifabergið að fara inn til Bátsfjarðar í Norður-Noregi til þess að millilanda, en í fyrradag var skipið á leið til Tromsö til löndunar og þaðan heldur áhöfnin heim til Íslands að halda upp á sjómannadaginn.

Því má bæta við að frá áramótum hefur áhöfnin á Kleifaberginu fiskað fyrir rúma tvo milljarða króna. Geri aðrir betur á rúmlega 40 ára gömlu skipi.

Sjá nánar í sjómannadagsblaði Fiskifrétta.