Breski fiskiskipaflotinn landaði 624.000 tonnum af sjávarafla, þ.m.t. skelfiski, á Bretlandi og í öðrum löndum á árinu 2013. Verðmæti sjávaraflans var 718 milljónir punda, um 140,5 milljarðar ÍSK. Aflinn dróst saman um 1% en verðmæti hans um 7% miðað við árið 2012. Til samanburðar má nefna að á síðasta ári nam afli íslenska fiskiskipaflotans 1.363.000 tonnum.Verðmæti aflans var einungis lítið eitt hærra hér á landi, eða 153 milljarðar kr. Þar vegur þyngst verðmæti skelfiskaflans á Bretlandseyjum.

Bolfiskafli Breta jókst um 10% milli áranna 2012 og 2013 og hefur ekki verið meiri í yfir tíu ár. Ýsa var fyrirferðamest í bolfiskaflanum. Hefur ýsuaflinn aukist um þriðjung á tveimur árum og var á síðasta ári 40.000 tonn. Uppsjávarafli dróst hins vegar saman á síðasta ári um 3% og skelfiskafli um 6% á síðasta ári.

Uppsjávarfiskur var fyrirferðamestur í heildarafla Breta, um 47%, en um leið verðminnstur, 25% af heildarverðmætinu. 38% verðmætanna komu frá bolfiskveiðum sem að stærstum hluta eru stundaðir á skipum frá Englandi. Skotar og Norður-Írar voru afkastamestir í uppsjávarveiðum en Walesverjar í skelfiskveiðum sem skiluðu 37% heildarverðmætanna.

Breski fiskiskipaflotinn var sá sjötti stærsti innan Evrópusambandsins 2012 en féll niður í sjöunda sæti á síðasta ári. Hann er hins vegar næst afkastamesti flotinn innan bandalagsins. Alls voru 6.400 fiskiskip með um 197.000 brúttotonna afkastagetu, skráðir á Bretlandseyjum. Sjómenn voru 12.150 talsins, þar af 1.800 í hlutastarfi.

Mestum afla var landað  í Peterhead í Skotlandi, alls 113.000 tonnum að verðmæti 112 milljónir punda, um 22 milljarðar ÍSK. Fjórum sinnum meiri afla var landað þar en í þeirri höfn sem kom næst sem var Lerwick.