Norska ríkisstjórnin ætlar að verja um þremur milljörðum króna (60 milljörðum ISK) á næstu árum til að efla vöruflutninga á sjó meðfram strönd Noregs. „Eitt skip getur komið í staðinn fyrir 400 flutningabíla á vegum landsins. Sjóflutningar eru umhverfisvænni og hagkvæmari en landflutningar,“ segir Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norska ríkisstjórnin hefur birt stefnumörkun sína um sjóflutninga við strendur landsins í ritinu ”Mer gods på sjø”.
Ríkisstjórnin hyggst ná markmiðum sínum með margvíslegum hætti. Meðal annars á að veita skipaútgerðum styrk til að koma upp hagkvæmum og lífvænlegum áætlunarsiglingum milli norskra hafna. Efla á hafnirnar sjálfar og bæta aðstöðu þeirra til vörugeymslu. Með því eykst samkeppnishæfni hafna gagnvart landflutningum.
Boðuð styrkveiting til að efla sjóflutninga þarf að hljóta samþykki ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, áður en hún tekur gildi.
Farskip eru með um 92% af vöruflutningi til og frá Noregi vegna utanríkisviðskipta en um 42% af vöruflutningi innanlands er með skipum. Hlutur skipa í innanlandsflutningum hefur farið stöðugt minnkandi og nú á að snúa þessari þróun við. Með því að hleypa auknu lífi í hafnirnar styrkjast strandbyggðir Noregs.