Verið er að landa úr frystitogaranum Blængi NK í Neskaupstað að loknum síðasta túr þessa árs. Aflinn er 524 tonn upp úr sjó og verðmæti hans eru 310 milljónir króna.

Túrinn tók 26 daga og er aflinn blandaður, mest er af ýsu en síðan er uppistaðan þorskur, ufsi og grálúða. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt.

„Við vorum alfarið hér við Austur- og Suðausturlandið. Mest vorum við á Gerpisflaki, Glettinganesflaki og Tangaflaki en síðan fórum við einnig á Papagrunn þar sem við lentum í mjög góðu tveggja sólarhringa ufsaskoti. Sannleikurinn er sá að þessi síðasti túr ársins var hörkutúr. Vinnslan um borð gekk vel allan túrinn og aflinn var í reyndinni jafn og góður. Veðrið var hins vegar ekki alveg upp á það besta. Það var bræla nánast allan tímann nema tvo síðustu dagana. Ég held að menn séu mjög sáttir við þessa veiðiferð og nú er ljúft og gott jólafrí framundan. Það verður haldið til veiða á ný að kvöldi annars janúar og fyrstu fjórir túrar nýs árs verða tiltölulega langir eða 35 – 40 dagar,” sagði Bjarni Ólafur.