Alls höfðu átján af tuttugu og fjórum íslenskum uppsjávarskipum með kolmunnakvóta á árinu 2024 landað kolmunna á Íslandi á þessu ári áður en veiðum var hætt í bili í síðustu viku. Aflamark í kolmunna á árinu er samtals tæp 310 þúsund tonn og alls höfðu verið veidd um 51 þúsund tonn. Enn eru því óveidd 259 þúsund tonn á þessu ár en búast má við að veiðar hefjist að nýju í mars.

Kolmunninn býr sig nú undir að fara að hrygna. Aðalhrygningarsvæðið er landgrunnið norðvestan og vestan við Bretlandseyjar. Hrygningin stendur yfir frá febrúar til apríl en að jafnaði hefjast veiðar íslenskra skipa aftur í mars á gráa svæðinu svokallaða vestur af strönd Norður-Írlands. Hrygningin gengur mjög nærri kolmunnanum og étur hann lítið meðan á henni stendur. Að hrygningu lokinni gengur hann í ætisleit norður á bóginn til hafsvæðisins milli Íslands og Noregs.

SVN tekið á móti 20.000 tonnum

Af þeim íslensku skipum sem hafa aflahlutdeild í kolmunna skera uppsjávarskip Síldarvinnslunnar sig úr hvað magn varðar. Beitir NK er með um 37.700 tonna kvóta og Börkur NK 35.600 tonna kvóta. Önnur kvótahá skip eru Venus NK, 24.800 tonn, Víkingur AK 23.500 tonn, Aðalsteinn Jónsson SU, 27.000 tonn og Jón Kjartansson SU, 26.600 tonn.