Viðskipti með fisk í heiminum ná því að verða meira en 370 milljarðar dollarar á ári eftir um fjögur ár, sem samsvarar um 43 þúsund milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri skýrslu þar sem spáð er í spilin fram til ársins 2015.
Hér er um verulega hækkun að ræða sem drifin er áfram af aukinni eftirspurn eftir fæði sem innheldur heilnæm prótín. Einnig mun eftirspurn aukast eftir því sem fólki fjölgar í heiminum og með batnandi efnahag þegar þjóðir heims rétta úr kútnum eftir efnahagskreppuna. Í kreppunni leitaði fólk gjarnan í ódýrari mat og fækkaði ferðum á matsölustaði. Þá mun almenn hækkun matvæla í heiminum styðja við þessa þróun.
Asía og Kyrrahafssvæðið eru stærstu markaður fyrir sjávarafurðir í dag og þar er einnig spáð að vöxturinn verði hraðastur á næstu árum. Þar kemur hvortveggja til batnandi efnahagur og mikil fólksfjölgun. Þá er einnig búist við að markaður fyrir sjávarafurðir í Suður-Ameríku vaxi mikið.