Skipulagsstofnun gaf nýlega út álit um matsáætlun vegna umhverfismats fyrirhugaðs eldisgarðs Samherja fiskeldis í Auðlindagarði HS Orku við Garð á Reykjanesi. Þar hyggst fyrirtækið reisa í þremur áföngum fiskeldisstöð með 40.000 tonna framleiðslugetu á ári. Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 60 milljarðar króna. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, bindur vonir við að framkvæmdir geti hafist við fyrsta áfangann í haust.

Fiskeldisstöðin samanstendur af seiðastöð með 6.000 m3 eldisrými, áframeldisstöð með 410.000 m3 eldisrými, hreinsistöð og sláturhúsi ásamt þjónustubyggingum. Framleiðslugeta stöðvarinnar verður 40.000 tonn á ársgrundvelli. Laxahrogn verða fengin frá Stofnfiski og bleikjuhrogn frá Hólum eða klakfiskastöð Samherja fiskeldis í Sigtúnum. Til framleiðslunnar þarf um 20.000 l/s af jarðsjó sem áformað er að bora eftir innan lóðar, 3.200 l/s af 32-37°C ylsjó sem kemur frá Reykjanesvirkjun og 50 l/s af ferskvatni sem verður leitt inn á lóðina 2 með veitukerfi HS-Orku. Fast efni verður síað úr frárennsli í hreinsistöð áður en því verður veitt til sjávar.

32 Reykjaneshallir

Samherji fiskeldi stóð fyrir upplýsingafundi fyrir skemmstu þar sem Jón Kjartan kynnti áform fyrirtækisins og fjallaði um álit Skipulagsstofnunar.

„Það sem um ræðir er m.a. 250.000 fermetrar af byggingum og framkvæmdir hefjast vonandi í haust en það ræðst af leyfisferlinu. Það yrði þá jarðvinna og í þeim efnum snýst málið um jarðvegsskipti á 200-400 þúsund rúmmetrum og sá verktími gæti verið um eitt ár. Byggingar gætu því farið að rísa seinnipart árs 2024 ef allt gengur upp. Hugmyndin er að framleiða þarna 40.000 tonn af fiski. Það er verið að fara af stað með risavaxið verkefni þar sem þörf verður fyrir 16 megavött af afli. Verkefnið verður í þremur áföngum og verður framleiðslugeta í fyrsta áfanga 10 þúsund tonn,“ segir Jón Kjartan. Til að setja stærðina á byggingunum í eitthvert samhengi þá er hún eins og 32 Reykjaneshallir en það íþróttamannvirki í Keflavík er eitt hið stærsta á landinu.

Notuð verður affallsorka frá HS Orku og stefnt er að samstarfi við rafeldsneytisframleiðanda um útvegun á súrefni til fiskeldisstöðvarinnar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir við áfanga 2 með alls 20.000 tonna árframleiðslu 2027 og við þriðja áfanga með alls 40.000 tonna framleiðslu 2030 og fiskeldisstöðin verði komin í fullan rekstur 2032.

Rætt um áburðarverksmiðju í Þorlákshöfn

Gríðarlegur uppbyggingarfasi á sér stað í landeldi þessi misserin. Í Þorlákshöfn reisir Geo Salmo eldisstöð með allt að 24.000 tonna ársframleiðslu og þar rís líka eldisstöð Landeldis með allt að 40.000 tonna laxaframleiðslu á ári. Í Viðlagafjöru í Vestmannaeyjum eru hafnar framkvæmdir á vegum Icelandic Land Farmed Salmon við laxeldisstöð með 15.000 tonna framleiðslugetu í fyrsta áfanga og mögulegri stækkun í 30.000 tonna framleiðslu.

Samstarf hefur tekist með landeldisstöðvunum um að skoðaðir verði möguleikar á nýtingu á fiskiseyru sem til fellur við laxeldið til áburðarframleiðslu í samstarfi við bændur í landinu.

Kjartan Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, var meðal þeirra sem sóttu fundinn. Honum á vinstri hlið er Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis. Myndir/Samherji
Kjartan Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, var meðal þeirra sem sóttu fundinn. Honum á vinstri hlið er Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis. Myndir/Samherji

„Félög sem eru í landeldi hafa sameinast um það markmið að reisa áburðarverksmiðju. Það er komin hugmynd að lóð og verksmiðju og fyrstu hugmyndir um staðsetningu hennar er í grennd við landeldisstöðvarnar í Þorlákshöfn. Það eru samræður í gangi við bændur um að fá mykju hjá þeim til að gera áburðinn betri. Verksmiðjan myndi draga verulega úr innflutningsþörf á áburði,“ segir Jón Kjartan.