Heimilt verður að stunda hrognkelsaveiðar í innanverðum Breiðafirði til og með 31. ágúst, samkvæmt breytingum á reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2023 sem birt hefur verið í Stjórnartíðindum.

Þetta er þriðja breytingin sem gerð er á upphaflegri reglugerð. Fyrst var dögum fjölgað úr 25 í 35 og síðar 45. Jafnframt var veiðitímabil lengt. Í stað þess að

lokadagur væri 30. júní var ákveðið að hann verði 12. ágúst á öllum svæðum. Með síðustu breytingu verður sem sagt heimilt að stunda hrognkelsaveiðar í innanverðum Breiðafirði til og með 31. ágúst.

Fram kemur á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda að grásleppubátar hafa nú veitt 3.610 tonn, en á sama tíma í fyrra var veiðin 4.121 tonn. Aflinn það sem af er ári er 12% minni en í fyrra. Alls hafa 163 bátar landað en voru á sama tíma í fyrra 173. LS áætlar að verð hafi hækkað um 40% frá í fyrra.

„Þrátt fyrir að vertíðin hafi verið lengd er ólíklegt að takist að veiða leyfilegt magn 4.411 tonn.“