Olíunotkun í sjávarútvegi á undanförnum árum hefur verið um 40% minni en hún var að jafnaði á fyrsta áratug þessarar aldar og nær helmingi minni en hún var á tíunda áratug síðustu aldar. Frá þessu er sagt í mælaborði Radarsins og þar segir að þessar tölur endurspegli þann markverða árangur sem sjávarútvegur hefur náð í loftlagsmálum.

Sjávarútvegurinum hafi tekist vel að draga úr olíunotkun og um leið tryggja verðmætasköpun til framtíðar.

16.000 tonna aukning í fyrra

„Á síðasta ári jókst olíunotkun í sjávarútvegi um 16 þúsund tonn en þá aukningu má hins vegar að stærstum hluta rekja til skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja. Sú skerðing kom á sama tíma og íslensk uppsjávarskip höfðu heimild til þess að veiða um 660 þúsund tonn af loðnu, sem er eitt mikilvægasta hráefni í vinnslu fiskimjölsverksmiðja á mjöli og lýsi. Er því óhætt að segja að sú skerðing raforkunnar hafi komið á afar óheppilegum tíma.“

olíunotkun1
olíunotkun1


Raforkuvæðing og nýrri skip

Einn þeirra þátta sem skýra minni olíunotkun á síðustu árum sé raforkuvæðing fiskimjölsverksmiðja. Auk þess hafi fyrirtækin ráðist í verulegar fjárfestingar í nýjum og stærri skipum, sem búa yfir nýrri tækni og eru sparneytnari en þau sem eldri eru. Eins hafa framfarir í veiðum og veiðafærum, betra skipulag veiða og fækkun skipa dregið úr olíunotkun.

Í grein Radarsins segir að enn sé til mikils að vinna í að minnka kolefnisspor íslensks sjávarútvegs en til þess þurfi fyrirtækin svigrúm til fjárfestinga.

olíunotkun
olíunotkun

„Hvers konar aukin gjöld á sjávarútveginn munu bitna á getu fyrirtækjanna til að fjárfesta og rýra þannig möguleika þeirra að ná háleitum markmiðum um samdrátt í losun. Það fellur því í hlut stjórnvalda, vilji þau ná settum markmiðum sínum í loftlagsmálum, að stilla gjaldtöku í hóf og standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið enda er það á grundvelli þess kerfis sem sjávarútvegur á Íslandi hefur náð svo markverðum árangri í samdrætti í losun gróðurhúslofttegunda.“

Radarinn er útgefinn af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.