Heildarveiðin hérlendis það sem af er grásleppuvertíðinni er rúm 40% af því sem hún var á sama tíma í fyrra. Þá er veiðin á rauðmaga jafnvel enn minna hlutfall í þessu samhengi. Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda.

,,Vertíðin hérlendis 2010 var metvertíð í flestum skilningi. Góð veiði, góð tíð, gott verð, kaupendur skorti hrogn og veiðin á Nýfundnalandi brást, fjórða árið í röð.

Það er mikil bjartsýni að halda að slík vertíð endurtaki sig á þessu ári. Það breytir þó ekki því að ef verð haldast þokkaleg, m.a. vegna minni veiði, geta uppgripin orðið þokkaleg. Næstu 2-4 vikur munu að mestu skýra hvernig mál munu leggjast á Íslandi og ekki löngu síðar verður það sama ljóst í Noregi og Grænlandi,” segir á vef LS.

Og áfram segir: ,,Stóra spurningamerkið er Nýfundnaland.  Þar hefur veiðin brugðist illilega 4 ár í röð.  Nú eru aðstæður hinsvegar mikið breyttar.  Hafís er ekki til trafala að neinu ráði, sjávarhiti eðlilegur og ekki lengur það sem veiðimenn þar í landi hafa kallað "dirty water".  Hafi þeir lagt net sín í þann ófögnuð fyllast þau af slími og veiði ekki neitt.  Nú virðist þetta fyrirbrigði farið að sinni, a.m.k.  Vertíðin á þeim bæ byrjar ekki fyrr en í maí og henni jafnvel frestað fram eftir mánuðinum, séu veður válynd og eða þeir sem fara og leggja verða lítið varir.”

Loks er þess getið að tröllasögur um ævintýralega grásleppuveiði í Noregi séu ekki á rökum reistar.

Sjá nánar á vef LS .