Verulegur samdráttur hefur orðið í veiðum Norðmanna á norsk-íslenskri síld það sem af er þessu ári, eða um 36%. Hins vegar hefur verð á síldinni hækkað það mikið að aflaverðmæti hennar hefur aukist um 25%.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins höfðu Norðmenn veitt um 447 þúsund tonn af norsk-íslensku síldinni sem er 252 þúsund tonna minni afli en á sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í tölum frá Norges Sildesalgslag.
Hækkun á meðalverði síldarinnar milli ára úr 2,47 norskum krónum á kíló í 4,83 krónur (99 ISK) nær á hinn bóginn að vega upp á móti samdrætti í veiðum og vel það.
Það sem af er ári er söluverðmæti síldaraflans nærri 435 milljónum króna meira en á sama tíma árið 2010. Frá janúar til loka október í ár hefur verið seld síld í gegnum sölukerfi Norges Sildesalgslag fyrir tæpa 2,2 milljarða (45 milljarða ISK) en salan nam rúmum 1,7 milljörðum á sama tímabili í fyrra.