Færeyska útgerðin JFK Trol telur sig hafa orðið fyrir tjóni upp á jafnvirði 350 milljóna íslenskra króna vegna afleiðinga þess að Rússar tóku togarann Skálabergs í lögsögu sinni. Útgerðin segir færeysk stjórnvöld bera ábyrgð á því hvernig fór og krefjast bóta.

Togarinn var tekinn í rússneskri lögsögu í nóvember í fyrra og var kyrrsettur í Múrmansk í 32 daga eða þar til dómari úrskurðaði að útgerðin skyldi greiða jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna í sekt. Útgerðin var fundin sek um veiðar á 618 tonnum af fiski án veiðiheimilda. Staðreyndin var hins vegar sú að Skálabergið var í góðri trú að fiska af kvóta skips annars skips í eigu sömu útgerðar sem hvarf úr flotanum í fyrra.

Hanus Hansen útgerðarmaður hjá JKF Trol hélt því fram í færeyska sjónvarpinu í gærkvöldi að samkvæmt fiskveiðisamningi Færeyja og Rússlands hefði færeyska fiskimálaráðið átt að tilkynna þennan kvótaflutning milli skipa en rússnesk stjórnvöld könnuðust ekki við að hafa móttekið nein slík skilaboð.

Hansen sagði að kostnaður af þessu máli öllu næmi nú yfir 15 milljónum danskra króna (jafnvirði 350 milljóna ísl. króna) og myndi útgerðin krefja færeyska fiskimálaráðið um hluta upphæðarinnar. Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja sagði í sjónvarpsþættinum að fiskimálaráðið hefði farið að gildandi venjum og því væri staða þess góð ef málið færi fyrir rétt.

Kyrrsetning Skálabergsins í Rússlandi var sérlega bagaleg því búið var að selja skipið og því tafðist afhending þess til nýrra eigenda.