Búið er að bræða 26-27 þúsund tonn af kolmunna í fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins í Vestmannaeyjum (FES) það sem af er árinu og um 7.000 tonn hjá verksmiðju Vinnslustöðvarinnar (FIVE), að því er fram kemur á vef Frétta í Eyjum.
Ólafur Guðmundsson, hjá útgerðarsviði Ísfélagsins, sagði að Guðmundur VE og Álsey VE hefðu verið á kolmunna og landað tvisvar í Eyjum eftir loðnuvertíðina, Álsey tæpum 3.200 tonnum og Guðmundur 2500 tonnum í bræðslu og 1500 tonnum af frystum afurðum. Annað hefði verið keypt af Norðmönnum, Færeyingum og Íslendingum. „Það er rólegra yfir veiðunum, Norðmenn eru hættir enda búnir með kvótann og Ísfélagsskipin að klára sinn kvóta og í síðasta túr á vertíðinni," sagði Ólafur.
Kap VE og Huginn VE, lönduðu afla hjá Vinnslustöðinni í síðustu viku. Sigurður Friðbjörnsson, verksmiðjustjóri FIVE, sagði Kap hafa verið með 1240 tonn og Hugin með tæp 1730 tonn en ekkert var fryst um borð í síðasta túr. „Við erum búin að bræða 7000 tonn af kolmunna frá áramótum og höfum ekki keypt neitt af öðrum skipum," sagði Sigurður.