Nú þegar komið er fram undir miðjan febrúar og loðnuvertíðin ætti að standa sem hæst er sú óvenjulega staða uppi að 33 erlend skip eru að loðnuveiðum við Ísland en ekkert íslenskt. Ekki er það eingöngu út af sjómannaverkfallinu því loðnukvóti Íslendinga er það lítill að þessu sinni að flestir hefðu sennilega kosið að veiða hann síðar hrognanna vegna jafnvel þótt ekkert verkfall væri.

Hjá Landhelgisgæslunni fengu Fiskifréttir þær upplýsingar að 30 norsk loðnuskip væru nú við landið og þrjú færeysk. Skipin eru dreifð alveg frá Austfjörðum og norður fyrir land. Aðeins sjö norsk skip tilkynntu Gæslunni um afla í gær, allt frá reytingsafla og upp í 500 tonn. Ekkert færeyskt skip tilkynnti um afla í gær en eitt fékk eitthvað smávegis í dag.

Á myndasíðu Þorgeirs Baldurssonar kemur fram að færeyska skipið Norðborg hafi gert stuttan stans á Akureyri í fyrrakvöld, þar sem skorið var úr skrúfunni áður en haldið var til loðnuveiða norðan við land. Skipið kom beint frá heimahöfn í Klakksvík en á leiðinni á miðin áttaði skipstjórinn sig á því að hliðarskrúfan að aftan virkaði ekki.

Ástæða þess kom í ljós þegar kafari kannaði aðstæður í Akureyrarhöfn; keðja og dekk höfðu fest í skrúfunni og þegar þeir aðskotahlutir höfðu verið skornir burt hélt skipið þegar til hafs á ný.