Að minnsta kosti 28 skip fiskuðu fyrir meira en einn milljarð króna á árinu 2009 og hafa ekki áður orðið fleiri, að því er fram kemur í samantekt Fiskifrétta. Á árinu 2008 fóru 24 skip yfir milljarðinn.
Fjögur skip veiddu fyrir meira en tvo milljarða króna og varð Vilhelm Þorsteinsson EA, skip Samherja, efst með 2.750 milljónir króna í aflaverðmæti. Hefur ekkert íslenskt skip fiskað fyrir svo háa fjárhæð fyrr.
Í öðru sæti varð Hákon EA, skip Gjögurs, með 2.370 milljónir. Aðalsteinn Jónsson SU, skip Eskju, varð þriðji með 2.200 milljónir og Guðmundur VE, skip Ísfélags Vestmannaeyja, í fjórða sæti með 2.150 milljónir króna. Tölurnar miðast við FOB-verðmæti.
Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.