Norska loðnuskipið Hardhaus varð fyrir því óhappi að fá 630 kíló af þorski með í 500 tonna loðnukasti í Barentshafi í fyrravetur. Yfirvöld hafa nú sektað útgerðina um jafnvirði 27,3 milljóna íslenskra króna og skipstjórann um 800 þúsund krónur fyrir þennan meðafla.

Talsmaður samtaka norskra útvegsmanna, Audun Maråk, segir á vef samtakanna að atvikið hafi átt sér stað á svæði þar sem loðnuskipum er uppálagt að vera mjög varkár gagnvart meðafla. Eigi að síður sé ekki unnt að koma algjörlega í veg fyrir að einhver meðafli fáist. Hardhaus hafi kastað einu sinni á viðkomandi loðnutorfu án þess að fá nokkurn meðafla en í næsta kasti hafi þorskurinn komið með. Um sé að ræða aðeins 0,12% meðafla. Önnur skip á svæðinu, sem voru að veiðum undir vakandi eftirliti norsku strandgæslunnar, hafi engan meðafla fengið.

Maråk kveðst gáttaður á þessum hörðu viðurlögum og hvetur útgerð og skipstjóra til þess að samþykkja þau ekki. Ef sektin verði ekki dregin til baka þurfi atvinnugreinin í heild að blanda sér í málið og styðja útgerðina. Refsingar af þessu tagi grafi undan virðingu og lögmæti eftirlitsaðilanna.