Veiðar á síld til matjevinnslu við Noreg hófust fyrir alvöru í síðustu viku. Mikil og góð eftirspurn var eftir síldinni þótt fitulag og átumagn hefði ekki verið eins og best verður á kosið. Mjög gott verð fékkst fyrir síldina, 13,46 krónur norskar á kílóið, sem jafngildir 275 krónum íslenskum. Fyrsti farmurinn sem barst að landi var 190 tonn.
Matjesíld sem svo er kölluð er sérverkuðu síld fyrir Holland og er snædd þar aðallega á sérstökum hátíðisdegi. Síldin þarf helst að vera 16% feit og veidd áður en hún eyðir orkuforðanum í framleiðslu á hrognum eða sviljum. Við verkunina er síldin meðal annars hausskorin og slógdregin að öðru leyti en því að hluti meltingarfæra er skilinn eftir. Ensím úr þeim gerir það að verkum að síldin verður “þroskuð” og fær sinn sérstaka keim. Matjesíld var verkuð á Íslandi hér á árum áður í töluverðum mæli. Orðið matjesíld kemur úr hollensku og þýðir jómfrúarsíld.
Verðið sem nú fékkst fyrir matjesíldina í Noregi er það hæsta sem þekkist. Sjómennirnir segja að ekki sé mikla síld að sjá á hefðbundinni veiðislóð og aðstæður til veiðanna voru ekki góðar. Um 7-8 norskir bátar eru nú komnir á þessar veiðar.