Danska uppsjávarskipið Ruth setti löndunarmet í norsku höfninni Egersund í lok síðustu viku. Skipið landaði þar 2.150 tonnum af norsk-íslenskri síld sem seldist á 17 til 18 milljónir norskra króna (um 237 milljónir ISK). Aflinn fékkst við Færeyjar.
Kaupendur eru hæstánægðir með síldina og segja að hún hafi verið það stór að hún hafi næstum jafnast á við lax. Síldin var það stór að hún rúmaðist ekki í vélar fyrir hefðbundna framleiðslu. Megnið af stóru síldinni var því flakað.
Ruth, sem er flaggskipið í danska flotanum, hélt síðan aftur til veiða á norsk-íslenskri síld í færeysku lögsögunni.
Frá þessu er greint á Fiskerforum.dk