WindWings seglbúnaðurinn sem knýr Pyxis Ocean er felldur niður þegar skipið er í höfn en í fullri reisn á siglingu nær seglbúnaðurinn 37,5 metra hæð. Skipið er með hefðbundnum skipsvélum en með því að nýta vindorkuna standa vonir til að draga megi úr koltvísýringslosun um 30% á líftíma skipsins. Tilraunaverkefnið nýtur stuðnings Evrópusambandsins, rétt eins og WHISPER verkefnið. Skipið er í eigu Mitsubishi Motors Corporation en flutningafyrirtækið Cargill Ocean hefur það á leigu.
Sex vikna sigling
Jan Dieleman, forstjóri Cargill Ocean, segir í samtali við BBC að nú sé að hefjast mótvægisaðgerðir gegn koltvísýringslosun innan greinarinnar en segir þó að engar skyndilausnir séu í sjónmáli. Fyrirtækið hafi tekið að sér að verða leiðandi í þessari tilraun til þess að draga úr koltvísýringslosun í flutningum.
Það tók Pyxis Ocean flutningaskipið um sex vikur að komast á áfangastað í Brasilíu með því að nýta vindorkuna sem mest. Vindorkutæknin er þróuð af breska fyrirtækinu BAR Technologies sem tengist siglingakeppni sem gengur undir heitinu „Formula 1 úthafanna“.
Upphafið að nýjum tímum?
John Cooper, yfirmaður BAR Technologies, sem áður starfaði fyrir Fomula 1 keppnislið McLaren, segir verkefnið eitt það hægfarasta sem hann hafi fengist við en án nokkurs vafa það sem hafi hve mest áhrif á framtíðina. Hann telur að jómfrúarsigling Pyxis Ocean muni marka upphafið að nýjum tímum fyrir siglingar. Hann spáir því að helmingur allra nýsmíða strax árið 2025 verði með vindorkulausn.
Talið er að koltvísýringslosun frá skipaflutningum á heimsvísu sé um 837 milljónir tonna á ári. Áætlað hefur verið að alþjóðlegir skipaflutningar séu ábyrgir fyrir 2,1% af heildarlosun CO2. Iðnaðurinn hefur gefið fyrirheit um kolefnishlutleysi í kringum miðja þessa öld sem margir telja innihaldslaust loforð. Sérfræðingar telja nú að notkun vindorku gefi góð fyrirheit.
„Vindorka gefur skipt miklu máli, segir Simon Bullock, prófessor í skipaverkfræði við háskólann í Manchester. Hann segir að það taki tíma að þróa nýja og hreinni orkugjafa og þess vegna verði að fara af fullum krafti í endurbætur á nýverandi flota, eins og með stálseglum, drekum og rótorseglum. Þá sé það einnig mikilvægur hluti af lausninni að draga úr siglingahraða.