Heildaraflinn á fiskveiðiárinu 2015/2016 var 1.047 þúsund tonn og dróst töluvert saman frá fyrra ári eða um rúm 22%, samkvæmt nýrri samantekt sem birtist á vef Fiskistofu .

Botnfiskaflinn nam 488 þúsund tonnum og jókst um rúmlega 24 þúsund tonn. Þorskaflinn jókst um rúm 28 þúsund tonn og ýsuafli um rúm 2,6 þúsund tonn þá jókst afli í gullkarfa um 6,7 þúsund tonn. Samdráttur var í veiðum á Barentshafsþorski um 1,3 þúsund tonn.

Verulegur samdráttur var í uppsjávarafla íslenska flotans eða um 330 þúsund tonn. Það er samdráttur upp á tæp 38% frá fyrra fiskveiðiári. Þetta skýrist aðallega af rúmlega 253 þúsund tonna samdrætti í loðnuafla en samdráttur var í öllum helstu uppsjávartegundum á síðasta fiskveiðiári. Samdráttur var í veiðum á norsk-íslenskri síld upp á rúm 25 þúsund tonn, og í Íslandssíld upp á 23 þúsund tonn og í makríl upp á 17 þúsund tonn. Í flokknum annar uppsjávarfiskur var hins vegar aukning. Hún var í spærlingi sem kom sem meðafli í veiðum á öðrum uppsjávarfiski.

Skelfisk- og krabbadýraafli jókst um 28% frá fyrra fiskveiðiári. Aukin veiði varð í öllum flokkum skelfisk- og krabbadýra sem tilgreindir eru í töflunni.  Humaraflinn jókst um 8% og rækjuafli um 7%. Í flokknum annar skel- og krabbadýraafli var aukningin hins vegar 107% milli ára eða úr 2.082 tonn í 4.314 tonn. Þetta skýrist af verulegri aflaaukningu í sæbjúga eða úr 1.200 tonnum í 2.908 tonn.