Álagning tekjuskatts og veiðigjalda á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki nemur um 22 milljörðum króna á árinu 2013 að því er kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg sem kynnt var í gærmorgun.

Sjávarútvegurinn hefur greitt að meðaltali um 2,6 milljarða króna á ári í tekjuskatt en síðustu tvö ár hafa skattgreiðslur aukist til muna. Samkvæmt nýlegum gögnum frá Deloitte nam tekjuskattur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, sem var til greiðslu á árinu 2013 fyrir rekstrarárið 2012, um 9 milljörðum króna

Almennt veiðigjald á fiskveiðiárinu 2012/2013 nam 3,7 milljörðum króna og sérstaka veiðigjaldið er 9,7 milljarðar. Lækkun á sérstaka veiðigjaldinu vegna vaxtakostnaðar er 2,7 milljarðar. Heildarupphæð almenns og sérstaks veiðigjalds vegna fiskveiðiársins til þessa er því 10,7 milljarðar króna.

Eftir er að leggja veiðigjald á ókvótabundnar tegundir en það verður gert í haust. Mögulega gæti heildarfjárhæðin sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiða í veiðigjald fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 því numið 13 milljörðum króna, segir í skýrslu Íslandsbanka.