Alls barst 21 umsókn um Byggðastofnunarkvóta sem auglýstur var 10. maí sl. Í byggðarlögunum Þingeyri, Suðureyri, Drangsnesi, Hólmavík, Hrísey, Borgarfirði eystra, Breiðdalsvík og Djúpavogi barst ein umsókn á hverjum stað. Tvær umsóknir bárust vegna byggðarlaganna Raufarhafnar og Bakkafjarðar, þrjár vegna Tálknafjarðar og sex vegna Grímseyjar.

Samtals er um allt að 2.200 þorskígildistonn að ræða til sveitarfélaga á Vestfjörðum; 500 tonn til Þingeyrar og einnig til Suðureyrar. Til Tálknafjarðar fara allt að 400 þorksígildistonn og 300 tonn til Drangsness og 500 tonn til Hólmavíkur.

Þá verður 2.050 þorskígildistonnum ráðstafað til sex byggðarlaga á Norður- og Austurlandi.

Úthlutanir síðustu tíu ára.
Úthlutanir síðustu tíu ára.

Á heimasíðu Byggðastofnunar segir að margar minni sjávarbyggðir hafi glímt við erfiðleika vegna kvótasamdráttar síðustu ár og áratugi. Til þess að mæta þeim vanda hafi stjórnvöld ákveðið að hluti þeirra aflaheimilda sem úthlutað er árlega skuli renna til byggðarlaga í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Þau byggðarlög koma til greina sem hafa átt í alvarlegum eða bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða ætla megi að samdráttur í greininni myndi skapa slíkan vanda, þar sem störf við veiðar og vinnslu séu eða hafi verið verulegur hluti starfa byggðarlaginu sl. 10 ár, þar sem íbúar séu færri en 450, þar sem íbúaþróun hafi verið undir landsmeðaltali sl. 10 ár, þar sem meira en 20 km. er í næsta byggðakjarna með meira en 1.000 íbúa, sem eru á vinnusóknarsvæði með undir 10.000 íbúum og þar sem úthlutun skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins að mati stjórnar Byggðastofnunar.

Úthlutunin verður til sex ára en eftirlit með samningunum er í höndum Byggðastofnunar og felst í árlegum skilagreinum samningsaðila um framkvæmd samninga.