Alls eru bókaðar 194 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna þetta árið með um 219.000 farþega. Bókunarstaðan, líkt og fyrri ár, byggir á væntingum skipafélaganna að koma til Faxaflóahafna. Í mars eru fyrstu skipin væntanleg en síðasta skipið hefur bókað komutíma í október.
Á sama tíma í fyrra voru 198 skipakomur farþegaskipa bókaðar til Faxaflóahafna með um 217.000 farþega. Bókunarstaðan byggði á væntingum skipafélaganna að koma til hafnarsvæða fyrirtækisins. Alls komu þó aðeins 68 farþegaskip til Faxaflóahafna þegar upp var staðið, með 18.950 farþega. Skipin sem komu hingað til lands voru lítil og miðlungsstór. Stóru farþegaskipin létu sig vanta.
Frá þessu segir í fréttum Faxaflóahafna.
Þar segir að farþegaskipti munu aukast árið 2022, ef allar bókanir ganga eftir. Áætlað er að af þessum 194 skipakomum, verði 98 skipakomur með 51.022 farþega í farþegaskiptum sem er talsverð aukning frá fyrri árum.
Þetta kallar á aðstöðubreytingar hjá Faxaflóahöfnum í Sundahöfn þar sem núverandi aðstaða er takmörkuð. Með vorinu verður sett upp bráðabirgðaaðstaða með viðeigandi tækjabúnaði til að allt gangi farsællega fyrir sig.
Nokkur skip munu sigla til Faxaflóahafna í fyrsta sinn árið 2022. Þeirra á meðal Le Commandant Charcot. Skipið er ísbrjótur hannaður til siglinga á norðurslóðum. Þetta er fyrsta farþegaskipið sem kemur til Reykjavíkur og er knúið náttúrulegu gasi.
Í lok ágúst mun síðan skip frá Norwegian Cruise Lines koma til landsins og verður því gefið nafn í Sundahöfn. Þetta er í annað sinn sem slíkt er gert í Reykjavík.