Niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga í júlí og ágúst síðastliðinn liggja nú fyrir í heild sinni.

Magn og útbreiðsla makríls á svæðinu var metin út frá afla í stöðluðum togum sem tekin voru með reglulegu millibili og var rannsóknasvæðið um 2,45 milljónir ferkílómetrar.

Heildarvísitala makríls (lífmassi) á svæðinu var metin um 9,0 milljón tonn, þar af voru 1,6 milljón tonn innan íslenskrar efnahagslögsögu eða tæp 18%.

Vísitala lífmassa er lítið eitt hærri en á síðasta ári og sú hæsta sem mælst hefur frá því að rannsóknir hófust árið 2007. Magn makríls innan íslenskrar lögsögu var svipað og mældist árin 2012 og 2013.

Heildarstærð svæðisins sem kannað var í ár var svipað og á síðasta ári þar sem viðbótar svæðið sem dekkað var innan grænlensku lögsögunnar í ár vegur upp á móti því að Norðursjórinn var ekki kannaður í þetta sinn. Því var aðeins lítill hluti lögsögu Evrópusambandsins kannaður nú.

Niðurstöður leiðangursins staðfestir líkt og leiðangrar fyrri ára, víðáttumikla útbreiðslu makrílsins. Það er þó ljóst að ekki náðist að dekka allt útbreiðslusvæði hans, einkum í syðri hluta grænlensku lögsögunnar og í Norðursjónum þar sem einkum yngri fiskur heldur til á þessum árstíma.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.