Norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet/Fiskaren segir í dag að Noregur og Evrópusambandið hafi látið undan þrýstingi Íslendinga í makríldeilunni og séu með í undirbúningi að leggja fram tilboð um að Ísland og Færeyjar fái samtals 16% makrílkvótans í sinn hlut.
Fram kemur í blaðinu að á fundi deiluaðila á Írlandi í desember hafi verið vilji til þess af hálfu Noregs og ESB að samþykkja samtals 14% hlut til landanna tveggja, þar af fengi Ísland 6,5% og Færeyjar 7,5%. Nú séu þessir aðilar tilbúnir að bjóða tveimur prósentustigum betur eða 16% samtals.
Hagsmunaaðilar í norskum sjávarútvegi hafa haft sig mjög í frammi í þessari deilu gagnvart norskum stjórnvöldum og þeir telja fráleitt að semja um meira en 4% til handa Íslandi og 7% til handa Færeyjum.
Þess má geta að Íslendingar hafa lagt til grundvallar í þessum viðræðum að fá 16-17% hlut af kvótanum sem er það hlutfall sem þeir nú hafa í heildarveiðinni. Þetta er svipað hlutfall og Noregur og ESB ætla Íslandi og Færeyjum samanlagt.