Á síðasta ári aðstoðuðu björgunarsveitirnar norsku um þúsund fiskiskip sem lent höfðu í vandræðum á sjó meðfram ströndinni. Þetta er um 15% af öllum fiskiskipum í landinu, að því er fram kemur í frétt á vef björgunarsveitanna. Um 3 þúsund frístundabátar, eitt þúsund fiskiskip og 12.300 manns fengu aðstoð björgunarsveitanna í fyrra. Þetta eru meira en hundrað fleiri útköll heldur en árið 2010. Verkefni björgunarsveitanna eru fjölbreytt allt frá björgun mannslífa, aðstoð við báta með vélarbilun og báta sem höfðu strandað eða fengið veiðarfæri í skrúfuna. Meðal annars var 67 skipum bjargað frá því að sökkva og 12 mönnum í bráðum lífsháska var bjargað.