Fiskiðnaðurinn í Perú gæti orðið fyrir 1.200 milljóna dollara tekjutapi (144 milljarðar ISK) ef ekki verður leyft að veiða ansjósu í haust. Þetta kemur fram á vef fis.com.

Veiðibann hefði alvarlegar afleiðingar, sérstaklega fyrir millistór og smá fyrirtæki. Um 300 þúsund íbúar í Perú hafa viðurværi af ansjósuveiðum og vinnslu í einni eða annarri mynd.

Samkvæmt rannsóknum fiskifræðinga er stofn ansjósu ekki nema 1,4 milljónir tonna. Það er ekki nægilegt til að hefja haustveiðar sem byrja yfirleitt snemma í nóvember og enda í janúar. Talið er að stofninn þurfi að vera 6 til 7 milljónir tonna til unnt sé að leyfa veiðar. Sjávarútvegsráðherra Perú hefur óskað eftir því að fiskifræðingar fari í annan leiðangur til að mæla ansjósustofninn eins og fram  hefur komið í Fiskifréttum.