Öllum starfsmönnum nema einum hefur verið sagt upp störfum hjá fiskvinnslu Toppfisks á Bakkafirði. Ástæðan er sú að útflutningur á þurrkuðum fiskafurðum til Nígeríu hefur stöðvast.
Greint er frá þessu á www.ruv.is .
Sveitarstjóri Langanesbyggðar vill leita til stjórnvalda eftir aðstoð.
Á Bakkafirði búa um 70-80 manns. Þrettán starfa hjá Toppfiski á Bakkafirði. Meginstarfssemin þar hefur verið vinnsla á þurrkuðum bolfiskafurðum sem hafa verið fluttar út til Nígeríu. Vegna gjaldeyristakmarkana nígerískra stjórnvalda hefur útflutningur þangað stöðvast. Því var tólf starfsmönnum sagt upp í gær. Flestir þeirra eru af erlendu bergi brotnir en sumir hafa búið lengi á Bakkafirði.
Gámur fullur af þurrkuðum fiskafurðum bíður á bryggjunni á Bakkafirði og ekki er vitað hvort hægt verður að koma honum í verð.
Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir þetta áfall fyrir byggðarlagið.
Hann segir að Langanesbyggð ætli að ræða við stjórnvöld í þeirri von að fá aðstoð vegna ástandsins.