Prófanir á hvalafælum í tengslum við netarallið héldu áfram í síðustu viku og það sem hafði lofað mjög góðu framan af reyndist þegar upp var staðið vita gagnslaust. Í Húnaflóa komu 12 hnísur í net með hvalafælum og 11 í net án hvalafæla. Ekkert var hins vegar um hnísu í Breiðafirði og úti fyrir Austurlandi og reyndi því ekki á búnaðinn þar.
Þegar rætt var við Tryggva Sveinsson, leiðangurstjóra á Þorleifi EA, um miðja síðustu viku var einungis ein hnísa komin í netin fyrir norðan. Þegar leið á vikuna breyttist staðan svo um munar.
„Hnísurnar komu allar í netin í Húnafirði í Húnaflóa. Samkvæmt okkar prófunum var þessi búnaður því ekki að gera sig,“ segir Tryggvi.
Sóttu í fælurnar
Verið var að prófa nýja gerð af fælum en prófanir á netarallinu í fyrra skiluðu sömuleiðis lökum niðurstöðum. Tryggvi segir fátt annað í stöðunni en að prófa sig áfram með enn fleiri gerðir fæla.
„Það var svo skrítið við þetta að ef það var hnísa í fælutrossunum þá var hún alltaf við fælu. Það lítur því einna helst út eins og einhver samskipti séu þarna á milli. Það gæti þess vegna verið að fælan gefi frá sér mökunarhljóð. Þetta voru allt karlkyns hnísur sem komu í netin og þrisvar sinnum voru tveir karlar sitt hvorum megin við fælu.“
Prófanirnar stóðu yfir í sjö daga og alls komu 23 hnísur í netin. Samkvæmt reglum má leggja tíu trossur en fiskiríið var svo mikið að áhöfnin á Þorleifi EA réði ekki við að leggja nema sex trossur á dag. Að meðaltali var landað 20 tonnum á dag.
Hnísan forðast yfirfull
„Þetta er það langmesta sem hefur verið hérna fyrir norðan og farið að nálgast það sem er fyrir sunnan. Kannski hittum við betur á fiskinn. Skipstjórinn er búinn að bera í tíu ár á þessu ralli og farinn að þekkja svæðin betur. Gylfi þekkir þetta og hittir á fiskinn,“ segir Tryggvi og vísar þar til Gylfa Gunnarssonar, skipstjóra á Þorleifi EA.
Þess má geta að í Húnafirði fékk Þorleifur EA 12 tonn í eina trossu tvo daga í röð og 11 tonn í sömu trossuna í þriðja drætti.
Tryggvi segir að þegar mikið var í netunum af þorski þá var ekki hnísa. En hún fór frekar í netin þegar minna var af þorski. Ástæðan geti verið sú að hún sjái fiskinn í netunum og forðist þau en flækist í þau séu þau tóm.
Tryggvi hefur verið á netarallinu fyrir norðan í 17 ár samfleytt. Hann segir veiðina hafa verið óvenjumikla og sé fiskurinn stærri og betur haldinn en hann reki minni til. Eftir einn róðurinn var landað 26 tonn og var meðalþyngdin 10 kg. Þetta er yfirstærð af fiski og hráefni sem vinnslan sækist eiginlega ekki eftir. Mest fari því í saltfiskvinnslu. Fyrir vikið fæst líka lægra verð fyrir fiskinn.
Framundan er nú að skila inn leiðangursskýrslu og senda öll sýni suður.