Allt að 114 prósenta verðmunur er á fiski eftir því hvar hann er keyptur. Algengur munur á hæsta og lægsta verði einstakra fiskafurða er 75 prósent eða meira. Þetta kemur fram í verðkönnun ASÍ sem nær til 25 fiskbúða og verslana með fiskborð víða um land, að því er fram kemur á vef RÚV.

Litla fiskbúðin í Hafnarfirði bauð oftast upp á lægsta vöruverðið, í fjórtán tilfellum af 23. Fiskás á Hellu var næst oftast með lægsta verð, í þrjú skipti. Hæsta verð var fimm sinnum að finna í Hafbergi í Reykjavík og fjórum sinnum í Fiskbúðinni Mos í Mosfellsbæ. Alls var kannað verð á 23 afurðum og var engin búð með þær allar á boðstólum. Könnunin nær aðeins til verðs en ekki er tekið tillit til gæða, segir ennfremur á vef RÚV.