Í tilkynningu segir að LearnCove er hluti af Sjávarklasanum og er þegar í notkun hjá fjölbreyttum hópi fyrirtækja í sjávarútvegi hér heima og erlendis. Hugbúnaðurinn nýtist jafnt fræðsluaðilum, framleiðendum tækjabúnaðar og útgerðarfyrirtækjum.
Í tilkynningunni segir jafnframt:
Tækjaframleiðendur geta skipt út gömlu handbókinni og útgerðarfyrirtæki nýtt fyrir gæðaferli og fjölbreytta þjálfun starfsfólks í vinnslum þeirra og skipum. LearnCove nýtist sérstaklega vel fyrirtækjum með starfsmenn eða viðskiptavini frá mörgum málsvæðum þar sem hugbúnaðurinn styður við sjálfvirkar þýðingar og túlkastuðning á 107 tungumálum.
Með notkun LearnCove til þjálfunar verður starfsemi fyrirtækja skilvirkari og skapar þeim ný tækifæri til vaxtar. Með aðgengilegum ferlum og þjálfun sparast verðmætur tími og kostnaður hvort sem snýr að viðskiptavinum, starfsmönnum eða samstarfsaðilum fyrirtækjanna.
InfoCapital, sem er fjárfestingafélag að stærstum hluta í eigu Reynis Grétarssonar stofnanda Creditinfo, leiddi hlutafjáraukninguna en meðal annarra fjárfesta er Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Aðalheiður Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri LearnCove um fjármögnunina:
„Í þessari fjármögnun felast töluverð tímamót fyrir LearnCove. Við erum í dag með 1.300 mánaðarlega notendur sem fjölgar hratt með nýjum viðskiptavinum. Við höfum þegar tekið fyrstu skrefin í erlendum vexti með samningum við alþjóðleg fyrirtæki og getum nú blásið til kraftmikillar sölu- og markaðssóknar á nýjum mörkuðum. Við erum sérstaklega ánægð með að fá inn í eigendahópinn svona sterka og reynslumikla bakhjarla. Við stefnum að því að byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki með íslenskar rætur, en bæði InfoCapital og Hilmar Veigar hafa veigamikla reynslu af því.”
Hákon Stefánsson, forstjóri InfoCapital:
„ Við fjárfestum í fólki og teymið hjá LearnCove er í vegferð sem við þekkjum og höfum trú á. Þannig hefur teyminu tekist að þróa og innleiða hugbúnað sem skilar notendum miklum ávinningi á sama tíma og tækifæri til frekari vöruþróunar liggja fyrir. Það staðfestir að teymið hefur skýran fókus og um leið aga til að forgangsraða góðum hugmyndum sem getur verið mikil áskorun fyrir frumkvöðla og reyndar í hugbúnaðarþróun almennt. Sú staðreynd að hluti viðskiptavina félagsins hefur átt frumkvæði að því að setja sig í samband við félagið til að hefja viðskipti staðfestir enn frekar að teymið er á réttri leið. Þetta er spennandi verkefni sem við höfum mikinn áhuga á og munum klárlega miðla reynslu okkar og þekkingu.”
Við þróun LearnCove var horft til heimsmarkmiða SÞ gagnvart umhverfismálum og stuðningi við fjölmenningu. Í því felst fækkun ferðalaga, lenging líftíma tækjabúnaðar og fækkun hráefnistjóna sjávarútvegsfyrirtækja. Með víðtækum tungumálastuðningi og sveigjanlegri nálgun í þjálfun næst stuðningur við fjölbreytta menningu og ólíkan tungumálabakgrunn.