Ísland hefur til þessa tilkynnt alls fjórtán svæði sem hafverndarsvæði (e. Marine Protected Area ) á skrá OSPAR-samningsins um vernd Norðaustur-Atlantshafsins.
Á meðal svæðanna fjórtán eru kórallasvæði sem eru friðuð fyrir veiðum, auk nokkurra svæða sem eru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum. Samanlagt flatarmál þeirra er 556 ferkílómetrar eða innan við 0,1% af efnahagslögsögunni. Alls eru tæplega 500 skráð hafverndarsvæði á OSPAR-svæðinu, sem ná yfir um 6,2% þess.
Hlutfallsleg stærð hafverndarsvæða er mjög mismunandi hjá aðildarríkjum OSPAR; innan við 1% hjá Danmörku, Portúgal og Írlandi, en yfir 30% hjá Belgíu og Þýskalandi. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni voru sett markmið um að 17% landsvæða og 10% hafsvæða nytu verndar árið 2020.
Langt í land
Ljóst er að þessum tölulegu markmiðum um vernd hafsvæða verður ekki náð hér í bráð eða hjá mörgum nágrannaríkjum Íslands við Norður-Atlantshaf.
Ástæða þessa er m.a. að vernd hafsvæða á sér styttri sögu en vernd svæða á landi, vísindaleg þekking á lífríki og náttúruminjum neðansjávar er takmarkaðri og verndarviðmið síður þróuð. Mikil hreyfing er hins vegar á vinnu nú varðandi verndarsvæði í hafi almennt á heimsvísu.
Hafsvæði innan 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslands eru tæplega 760.000 ferkílómetrar. Ef 10% af því svæði væru yfirlýst hafverndarsvæði væri flatarmál þeirra því 76.000 ferkílómetrar. Flatarmál hafsvæða innan 12 sjómílna landhelgi Íslands mun vera tæplega 70.000 ferkílómetrar. Því myndi verndun alls hafsvæðis innan landhelginnar fara langt með að ná tíu prósenta markmiðinu ef efnahagslögsagan er höfð sem viðmið.
Heimild: Alþingi - Svar við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um hafverndarsvæði.