„Það er alveg rétt að hér er verið að gera grundvallarbreytingu, ef svo mætti að orði komast, á starfsemi fiskeldisfyrirtækja og því sem snýr að eldi í íslenskum sjó,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í umræðum á Alþingi 10. apríl síðastliðinn.
Til umræðu var stjórnarfrumvarp um breytingar á ýmsum lagaákvæðum er tengjast fiskeldi.
Frumvarpið er allviðamikið en meginbreytingarnar eru þær að áhættumat á erfðablöndun skuli gera reglulega, eldissvæði verði skilgreind og þeim úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði, auk þess sem tekið verði upp innra eftirlit eldisfyrirtækja.
Gert er ráð fyrir því að Hafrannsóknarstofnun gefi út áhættumat erfðablöndunar ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti, en oftar ef þurfa þykir.
Hafrannsóknastofnun gaf í fyrsta sinn út áhættumat vegna erfðablöndunar í laxeldi í júlí 2017, þar sem meðal annars var lagt til að eldi verði hvorki leyft í Ísafjarðardjúpi né Stöðvarfirði vegna nálægðar við laxveiðiár. Niðurstaða áhættumatsins var þó sú að hér við land sé ásættanlegt að leyfa 50 þúsund tonna eldi á frjóum laxi á Vestfjörðum og 21 þúsund tonn á Austjörðum, auk þess sem óhætt sé að framleiða til viðbótar allt að 61 þúsund tonn af ófrjóum laxi.
Á íbúafundi í Bolungarvík í síðustu viku boðaði Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, endurskoðun áhættumats vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi.
Verja þurfi villta stofna
„Það er stefna stjórnvalda að gæta ýtrustu varúðar við uppbyggingu fiskeldis og byggja ákvarðanir stjórnvalda um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna,“ segir í greinargerð atvinnuveganefndar með frumvarpinu.
„Hin síðari ár hefur uppbygging fiskeldis verið umtalsverð hérlendis. Nú er svo komið að fiskeldi, sér í lagi eldi á laxi í sjókvíum, hefur eflt atvinnulíf og byggð á tilteknum stöðum á landinu,“ segir þar ennfremur.
Bent er á að áform um frekari uppbyggingu laxeldis í sjókvíum séu umdeild en væntingar séu um að sú uppbygging skili þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum. Fiskeldi þurfi hins vegar „að vera ábyrgt og byggt á grundvallaratriðum um sjálfbæra þróun og verndun lífríkis svo koma megi í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum stofnum og lífríki.“
Í umræðum um frumvarpið sagðist Kristján Þór ekki „hafa nokkra aðstöðu til að ætla annað en að Hafrannsóknastofnunin, eins og fleiri stofnanir hins opinbera, geri nokkuð annað en að vinna á grundvelli bestu fáanlegu þekkingar hverju sinni.“
Upplýsingavefur fyrir fiskeldi
Af öðrum breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu má nefna að gert verði ráð fyrir meiri og tíðari upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja til stjórnvalda, og að stjórnvöld fái jafnframt heimild til að birta opinberlega upplýsingar úr rekstri fyrirtækja, niðurstöður eftirlits og ákvarðanir um þvingunaraðgerðir og viðurlög.
„Mögulegt verður að birta upplýsingarnar rafrænt á netinu á sérstakri vefsíðu fyrir íslenskt fiskeldi,“ segir í greinargerðinni. “Markmið slíkrar vefsíðu væri að veita réttar og traustar upplýsingar um íslenskt fiskeldi fyrir almenning, frjáls félagasamtök, þá sem eru í viðskiptum við íslensk fiskeldisfyrirtæki og þá sem þurfa að afla og mögulega vinna með upplýsingar um íslenskt fiskeldi. Markmiðið er að auka gegnsæi í starfsemi fiskeldisfyrirtækja.“