Landssamband smábátaeigenda krefst þess að ýsukvótinn verði tafarlaust aukinn um 5.000 tonn. Að öðrum kosti stöðvist bátarnir og hundruð manna missi vinnuna.

Þetta kom fram í máli Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra LS á fundi í atvinnuveganefnd Alþingis í morgun með fulltrúum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og talsmönnum Hafrannsóknastofnunar.

„Við erum búnir að veiða okkar ýsu og bátarnir eru að stöðvast hver á fætur öðrum. Þetta veldur því að það er atvinnuleysi í landi. Ég spái því að það verði hundruð manna sem missa atvinnu sína og það er algjörlega vonlaust að kaupa eða fá leigðan ýsukvóta eins og staðan er í dag", sagði Örn í viðtali í hádegisfréttum RÚV.

Björn Ævarr Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafasviðs Hafrannsóknastofnunar, benti á í viðtali við RÚV að núna séu á leiðinni fimm til sex lélegir árgangar af ýsu: „Þannig að það er alveg ljóst sama hvað við gerum að ýsuaflinn mun fara minnkandi á næstu árum og við teljum ekki ráðlegt að auka við aflann nú, það mun eingöngu leiða til þess að við munum þurfa að lækka aflamarkið enn hraðar heldur en ella í framtíðinni,“ sagði Björn Ævarr.