Þótt fiskimenn á smábátum í Noregi gleðjist yfir því að þorskveiðar báta styttri en 11 metra hafi verið gefnar frjálsar þar í landi frá og með síðustu áramótum fylgir böggull skammrifi.
Veiðiheimildir í ýsu voru minnkaðar 2013 og nú aftur í ár. Það gerir það að verkum að nær ómögulegt er að veiða mikið af þorski þar sem ýsa fæst alltaf sem meðafli. Ýsan er kvótasett og hefur hver bátur ekki nema um 5 - 7 tonna kvóta. Óheimilt er að flytja veiðiheimildir milli báta, eini möguleikinn er að fá hann fluttan frá stærri bátum. Þeir eru hins vegar lítt aflögufærir.
Þetta kom fram í máli Bjørn Roar Jensen formanns Samtaka strandveiðimanna við N-Atlantshaf á aðalfundi þeirra sem haldinn var í Hamborg 6. febrúar síðastliðinn og greint er frá á vef Landssambands smábátaeigenda.
Bjørn bætti við aðspurður um veiðiheimildir, að allir nema fiskifræðingarnir gerðu sér grein fyrir gríðarlegu magni ýsu á miðunum. Af þeim sökum hefði kvótinn ekki enn verið aukinn.
Fulltrúar LS greindu norskum kollega sínum frá því að vandamálið væri ekki óþekkt á Íslandi!