Herja ST frá Hólmavík lenti í ýsumoki á Húnaflóa nýlega, að því er fram kemur á aflafrettir.com. Báturinn, sem er 8,5 brúttótonn, fékk 8,6 tonna afla í róðri.
Róið var með 28 bala. Helmingur línunnar var dreginn í rólegu fiskeríi en síðan fengust um 500 til 600 kíló á bala að meðaltali á hinn helminginn. Línan var lögð á 70 til 120 föðmum. Þegar búið var að draga línuna var báturinn kjaftfullur. Að meðaltali fengust 306 kíló á balann í róðrinum. Um 5 tonn af aflanum voru stórýsa, yfir 2 kíló, og meðalþyngd var 3 kíló. Allur aflinn fór á markað og fengust 2,7 milljónir króna fyrir hann eða um 314 krónur á kíló í meðalverð. Sjá nánar:
http://www.aflafrettir.com/blog/2012/12/17/ysumok,__8_tonna_batur_med_8,6_tonna_afla!/