Ýsukvóti er nú einungis 14% af þorskkvóta en var hæst 73% fyrir nokkrum árum. Þetta kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda þar sem vakin er athygli á vanda smábáta þar sem hlutfall ýsu í afla á móti þorski er margfalt hærra en hlutföll milli kvóta þessara tegunda. LS vill að ýsukvótinn verði aukinn um 5 þúsund tonn og að línuívilnun verði 30%.
Á sl. 11 árum hefur hlutfall ýsu og þorsks í heildaraflaákvörðun verið um 36%, segir á vef LS. Hæst var það fiskveiðiárið 2007/2008, 73%, en það ár var tillagan 95 þús. tonn í ýsu og 130 þús. tonn í þorski. Í ár er aftur á móti lægsta hlutfall á þessu tímabili eða aðeins 14%. Það þarf því engan að undra að staðan sé erfið þegar við bætist að hlutföllin á grunnslóðinni eru nær því sem var 2007/2008.
Landssamband smábátaeigenda hefur kynnt hugmyndir til að létta mönnum róðurinn þannig að ekki þurfi að borga með sér í hverjum einasta þorskróðri, eins og það er orðað. Tillagan er í þremur liðum:
a. Veiðiheimildir í ýsu verði auknar um 5.000 tonn.
b. Eitt þúsund tonnum sem tekin voru úr línuívilnunarpotti verði skilað.
c. Línuívilnun í ýsu verði fyrir alla dagróðrabáta og hún hækkuð úr 20% í 30%.
Sjá nánar rökstuðning fyrir tillögunum á vef LS .