Útflutningur á sjávarafurðum til Bandaríkjanna hefur margfaldast á fyrstu sex mánuðum ársins, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.

Gríðarleg aukning er í útflutningi á ferskum þorski til Bandaríkjanna. Á fyrri helmingi ársins nam sala þangað 966 tonnum á móti 368 tonnum á sama tímabili í fyrra. Magnið nú jafngildir 9% af heildarútflutningnum.

Samfara 35% aukningu á heildarmagni jukust verðmætin um 1,5 milljarð og fóru í 12,4 milljarða. Meðalverðið nú er 15% lægra en í fyrra.

Röð þeirra þriggja þjóða sem mest er flutt til er óbreytt frá því í fyrra. Frakkar bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir með 43% af magninu, Bretar eru næstir þeim og Belgar þriðju í röðinni.

Líkt og í þorskinum eru viðskipti með ýsu við Bandaríkin afar áhugaverð. Þangað voru flutt rúm þúsund tonn á fyrstu sex mánuðum ársins sem er rúmlega 40% aukning milli ára. Á sama tímabili á síðasta ári keyptu Bretar langmest af ferskri ýsu frá okkur, en nú eru Bandaríkin komnir í forystuna og er hlutdeild þeirra í ár 44%.

Heildarútflutningur á ferskri ýsu hefur dregist saman um 9% milli ára, en verðið hækkað um 4%. Útflutningsverðmæti á þessu ári var komið í 2,9 milljarða í lok júní, segir á vef LS.