Að undanförnu hefur ekkert lát verið á fréttum af góðum afla og mikilli ýsugengd á grunnslóðinni vítt og breitt um landið. Nýverið lögðust nokkrir Strandamenn í rannsóknarvinnu, að því er fram kemur á vef LS . Rannsókninni var beint að ýsu, hvort það ætti við rök að styðjast að meira væri af henni á miðunum en þorski og hvað hún væri að éta.
Farið var í róður og aflinn sem fékkst var 70- 80% ýsa en 20 - 30% þorskur. Það var því ekki um að villast, ýsan var allsráðandi á slóðinni.
Við blóðgun og slægingu þótti mönnum sem þyngd ýsunnar væri nokkru meiri en búast mætti við af stærðinni. Við krufningu kom í ljós að hún hafði gleypt töluvert af grjóti. Á myndinni sem hér fylgir má sjá rannsóknargögnin, væn gota og önnur innyfli og grjótið í öndvegi. Það má geta þess að meðalvigt þeirrar ýsu sem var með áberandi mest af grjóti í maganum var um og yfir fjögur kíló.
Á vef LS er spurt:
Hvers vegna er ýsan að gleypa grjót? Það hlýtur að vera einhver tilgangur í því, enda er alltaf að koma betur og betur í ljós að fiskar búa yfir ágætum vitsmunum.
Nokkur svör bárust við vinnslu fréttarinnar:
• Hún gerir það til að þyngja sig til að auðvelda sér að dýpka á sér.
• Hún er að flýta fyrir tímabærum dauðdaga
• Grjótið fer óvart upp í hana með annarri fæðu
• Ýsan hefur ákveðið að rugla um fyrir fiskifræðingum við stofnstærðarmælingar
Óskað er eftir skoðunum lesenda á þessu fyrirbrigði, segir á vef LS.