Að gefnu tilefni og með vísan til skrifa og yfirlýsinga forstjóra FISK Seafood ehf um dragnótarveiðar vill stjórn Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar taka eftirfarandi fram:

- Félagar í Drangey fagna að sjálfsögðu þeirri fádæma ýsugengd sem verið hefur á Skagafirði og nærliggjandi miðum á þessu ári og telur afar jákvætt að þessi stofn sé vel nýttur og afla úr firðinum landað sem mest á Sauðárkróki.
- Gagnrýni félagsmanna á þær dragnótarveiðar sem hafa verið stundaðar á firðinum í sumar snúast eingöngu um hvar þessar veiðar hafa farið fram. Annars vegar upp í fjörum utan ósa Héraðsvatna á mjög vel þekktum hrygningarsvæðum þorsks og hins vegar á þeim tiltölulega fáu þorskveiðistöðum færabáta sem er að finna innan eyja og ekki var hægt að veiða með dragnót á fyrr á árum.
- Félagið styður allar rannsóknir sem gerðar eru á fiskistofnum og öðru lífríki á firðinum og tekur því undir ályktun sveitarstjórnar Skagafjarðar um þessar veiðar. Rannsókn Hafrannsóknastofnunar frá þvi í október 2008 þar sem fjögur tog voru tekin út af Fagranesi með tiltölulega lítilli tveggjabyrða flatfiskadragnót er að áliti félagsins vart þess eðlis að draga megi þá ályktun af, að veiðar með þeim risadragnótum sem nú eru notaðar á stærri skipum hafi engin áhrif á lífríki fjarðarins. Því skuli slíkar veiðar heimilar án svæðistak-markana á öllum firðinum. Minna má á að þessi sama stofnun lagði til árið 1972 að allar togveiðar með botntroll og dragnót yrðu bannaðar inn 12 mílna landhelginnar fyrir öllu Norðurlandi.
Skagafirði 10. ágúst 2025
Magnús Jónsson, formaður Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar.

Magnús var í viðtali í Fiskifréttum í lok júlí um sjónarmið Drangeyjar í málinu og fjallað var um skrif framkvæmdastjóra Fisk Seafood í Fiskifréttum í kjölfarið.