Gert er ráð fyrir því að yfirborð sjávar við strendur Noregs muni jafnvel hækka um 30 sentímetra á næstu 50 árum. Þetta kemur fram í skýrslu sem Helge Drange, prófessor við háskólann í Björgvin, skrifar og greint er frá á vef Norges sildesalgslag.
Í skýrslunni segir að á næstu 100 árum megi búast við því að hækkun sjávar verði á milli 20 til 80 sentímetrar við Ósló, aðeins meiri við suður- og vesturströndina en ekki eins mikil norðar.
Ef ekki verður dregið stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda getur yfirborð sjávar jafnvel hækkað um 1 til 1,5 metra meðfram stórum hluta strandarinnar við Noreg árið 2200. Í heiminum öllum er talið að yfirborð sjávar hækki að jafnaði um 30 sentímetra á 100 árum, segir ennfremur í skýrslunni.
Ástæðan fyrir þessum breytingum er hlýnun jarðar; rúmmál sjávar eykst eftir því sem hann hlýnar meir, jöklar bráðna og í þriðja lagi bráðnar heimsskautaísinn.