Útgerðarfélagið Lauritzen Fisk AS í Kjøllefjord í Noregi hefur keypt og fengið afhentan nýjan Cleopatra 36 bát frá bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði.

Árið 2019 fékk þessi sama útgerð sams konar bát frá Trefjum og mun reka bátana tvo samhliða. Nýi báturinn heitir Tinder, er 10,99 metrar á lengd og 11 brúttótonn. Hann er þegar kominn í notkun. Báturinn er langt í frá sá fyrsti frá Trefjum sem keyptur er til Noregs.

„Norðmenn hafa líka keypt mikið af notuðum bátum sem við höfum smíðað fyrir aðra, bæði hérna heima og í öðrum löndum. Þannig að við erum með vinsæla vöru í Noregi,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja, spurður um sterka stöðu fyrirtækisins ytra. Það sé vel kynnt erlendis, sérstaklega í Noregi enda hafi veiðar yfirleitt gengið vel á þessum bátum.

Í Argentínu og Indlandshafi

„Ætli það sé ekki vegna þess að við erum að reyna að vanda okkur og uppfylla þessar gömlu, góðu kröfuum að mæta þörfunum sem eru settar fram. Og svo er þetta einfaldlega góður og stöðugur bátur,“ svarar Högni spurður nánar um vinsældirnar.

Högni tekur fram að þótt ekki sé um ræða stóra báta séu þeir býsna flóknir. „Kerfin þurfa að virka þannig að menn séu ekkert stopp,“ segir hann.

Bátarnir hafa einnig verið seldir til Skotlands, Írlands, Englands, Frakklands og víðar um heiminn, meðal annars á fjarlægar slóðir eins og Argentínu, Indlandshaf og Miðausturlönd.

Vita allt um bátana sína

Frá því að fyrirtækið var stofnað 1980 segir Högni að rúmlega 450 bátar hafi verið smíðaðir.

„En fyrstu nýsmíðuðu bátarnir fóru erlendis rétt eftir aldamótin. Ég hugsa að það séu örugglega 150 bátar komnir út, bæði notaðir og nýir,“ segir hann.

Stundum hafi Trefjar milligöngu þegar notaðir bátar séu seldir. Þegar bátar fari milli landa sé blæbrigðamunur á því hvaða kröfur þurfi að uppfylla.

„Við losnum aldrei við þessa báta, sem betur fer. Það er ætlast til að við vitum allt um bát sem við smíðuðum fyrir tuttugu árum – og við gerum það. Ef við hjálpum mönnum ekki sjálfir getum við komið þeim í samband við þá sem framleiddu viðkomandi búnað á sínum tíma.“

Nýi báturinn í Noregi - tæknilýsing

» Aðalvél bátsins er af gerðinni Scania D9 350hö tengd ZF286IV gír. Hann er búinn siglingatækjum af gerðinni Olex og Simrad.

» Vökvadrifnar hliðarskrúfur eru að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins. » Báturinn er útbúinn til línuveiða og netaveiða. Línuspil er frá Beiti og netabúnaður kemur frá Noregi.

» Lest bátsins rúmar fimmtán 380 lítra fiskikör.

» Lífbátur og annar öryggisbúnaður bátsins er frá Viking.

» Stór borðsalur og fullbúin eldunaraðstaða er í brúnni. Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.  Salerni með sturtu.

HEIMILD: TREFJAR