90% sjómanna sem þátt tóku í atkvæðagreiðslu félaga innan Sjómannasambandsins voru fylgjandi því að fara í verkfall þegar átti eftir að telja atkvæði frá einu félagi. Verkfall er boðið 10. nóvember nk. Tæp 92% félagsmanna VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, sem þátt tóku, samþykktu að fara í verkfall.
„Ég átti ekki von á svo skýrum stuðningi við okkar málflutningi og það er gott að vita að baklandið er sterkt,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
„Þetta segir okkur að sjómenn eru tilbúnir í átök ef á þarf að halda. Þetta eru skýr skilaboð til okkar viðsemjenda að það þarf að gera nýjan kjarasamning. Ég veit ekki hvort það takist fyrir 10. nóvember en menn eru klárir í að standa að baki okkur í átökum.“
Sjómenn setja á oddinn fiskverðsmál og mönnunarmál. Einnig er gerð krafa um bætur vegna niðurfellingar á sjómannaafslætti, orlofs- og desemberuppbót og hækkun á fatapeningum.
Valmundur segir að sjómenn vilji einnig leggja niður svokallað nýsmíðaálag í skrefum vegna breytinga á aðstæðum innan sjávarútvegsins frá því sem var þegar það var sett á. Álagið felur í sér 10% lækkun launa sjómanna fyrstu sjö árin eftir að nýtt skip berst útgerð.
„Ég get ekki séð að útgerðin þurfi afslátt á því eins og árferðið er í sjávarútvegi og hefur verið á undanförnum árum.“
Búast má við að viðsemjendur hittist á ný í þessari viku eða þeirri næstu.
Þátttakan í atkvæðagreiðslunni hjá félögum innan Sjómannasambandsins var að meðaltali rúm 55% en tæp 72% hjá VM.
Sjá nánar um niðurstöður atkvæðagreiðslu á vef SSÍ og á vef VM.