Viðamestu framkvæmdir nokkru sinni í Vestmannaeyjum standa yfir þessa dagana þegar ný landeldisstöð LAXEY rís í Viðlagafjöru við nýja hraunið í austanverðri Heimaey. Þar er nú að klárast fyrsti áfangi verkefnisins. Stefnt er að fyrstu slátrun í nóvember næstkomandi í nýju sláturhúsi sem er að verða tilbúið í Viðlagafjöru. Slátra á 700 tonnum á þessu ári og um 4 þúsund tonnum á næsta ári. Að uppfylltum öllum fyrirliggjandi leyfaumsóknum verður slátrað hjá LAXEY um 35 þúsund tonnum af slægðum laxi á ári. Miðað við kílóverð upp á 1.000 krónur verða útflutningsverðmæti LAXEY miðað við þetta framleiðslumagn um 35 milljarðar króna á ári.
Upphafsmaður þessa mikla uppbygginga ævintýris er Sigurjón Óskarsson útgerðarmaður og fjölskylda hans. Sigurjón gerði út Þórunni Sveinsdóttur VE í gegnum útgerðarfélagið ÓS og vann fiskinn í fiskvinnslu fyrirtækinu Leo Seafood. Vinnslustöðin keypti fyrir tækin í október 2022 en bókfærðar eignir þeirra námu þá 5,7 milljörðum króna eins og fram kom þá í fjölmiðlum. Andvirði sölunnar hefur að langstærstum hluta verið varið til uppbyggingar landeldis fyrirtækisins í Viðlagafjöru. Í ferlinu hefur bæst við fjöldi nýrra fjárfesta sem koma að verkefninu. Mikill stuðningur er líka við verkefnið frá samfélaginu í Vestmannaeyjum sem virðist kunna að meta það að þau fyrirtæki sem Sigurjón og fjölskylda höfðu byggt upp á staðnum áratugum saman yrðu áfram í rekstri innanbæjar og að andvirði sölunnar hafi verið varið til fjármögnunar í spennandi iðnaði á öðru sviði í Vestmannaeyjum sem þó fellur vel að bakgrunni heimamanna úr sjávarútvegi.
Fyrstu tekjurnar af sölu á stórseiðum
Fiskifréttir fóru í skoðunarferð í fylgd með Hallgrími Steinssyni rekstrarstjóra og einum af stofnendum LAXEY, um seiðaeldishúsið við Friðarhöfn og í Viðlagafjöru, þar sem stórbrotnar framkvæmdir standa núna yfir. Í Viðlagafjöru eru risin átta 5.000 rúmmetra ker sem hvert mun rúma um 300 tonn af fiski sem verður alinn þar upp í sláturstærð. Þar er einnig að hefjast uppsetning á sláturhúsi fyrirtækisins þar sem sláturfiskur verður í fyrsta fasa slægður og pakkaður í ís til útflutnings. Allt er þetta þó einungis hluti af fyrsta áfanga. Slátrunin sem á að hefjast í nóvember á um 700 tonnum skapar þó ekki fyrstu tekjurnar í rekstri LAXEY.

Í sumar hefst nefnilega sala á 500-800 gramma stórseiðum til innlendra fyrirtækja í sjókvíaeldi á laxi. Seiðin hafa þá verið í seiðaeldisstöð í um eitt ár og í áframeldi í Viðlagafjöru í 35 mánuði. Með stórseiðunum gefst samstarfsaðilum LAX EY tækifæri til að ala seiðin einungis einn vetur í sjókvíum. Kosturinn er minni lúsameðhöndlun, minni dauðsföll og betri afkoma og framleiðsluhættir fyrir sjókvíaeldið. Mun stórseiðasalan leiða til fullnýtingar á seiðaeldisstöðinni og skapa sterka aukatekjustoð inn í rekstur LAXEY.
„Við reisum þessa stöð í samstarfi við AKVA Group sem eru fremstir í heiminum í byggingu endurnýtingarstöðva í laxeldi. Fyrsti hópurinn af hrognum var tekinn inn í nóvember 2023. Sá hópur er núna að nálgast eitt kíló að þyngd og er alinn áfram úti í Viðlagafjöru. Í hrognaskápum og startfóðrun okkar hér í seiðaeldisstöðinni eru nú fjórði og fimmti hópurinn og við erum gagngert að keyra upp magnið í seiðaeldisstöðinni,“ segir Hallgrímur. Hrognin koma frá Benchmark Genetics Iceland, áður Stofnfiski. Fóðrið kemur frá öðrum samstarfsaðila, Skretting í Noregi.
4-5 milljónir seiða í stöðinni
Hallgrímur segir að meðvitað hafi verið ákveðið að hafa fyrsta hópinn lítinn til þess að fullreyna allan búnaðinn í seiðaeldisstöðinni. Nú er hún komin í stöðugan rekstur og árangurinn verið framar vonum. Með hverjum nýjum hóp sem kemur inn bætast afköst stöðvarinnar. Þegar hámarks afköstum verður náð verða í kringum fjórar til fjórar og hálf milljón einstaklinga í seiðaeldisstöðinni á ári, að meðaltali um 100 grömm hver. Seiðaeldisstöðin er ferskvatnsstöð með fullkomnu endurnýtingarkerfi en í lokaáfanganum, áður en seiðin eru flutt út í Viðlagafjöru til áframeldis, eru þau seltuvanin og bólusett.

„Fyrir fiskeldi á landi þurfa þrjár forsendur að vera fyrir hendi, að mínu mati. Það þarf samfélag, innviði á bak við verkefnið og vatnsuppsprettur. Það er allt til staðar hér í Vestmannaeyjum. En þetta eru fjárfrekar framkvæmdir og þung verkefni til fjármögnunar. Við gátum keyrt þetta hratt í gang vegna þess að fjölskyldan er afar sterkur bakhjarl. Við höfum núna séð miklar breytingar á viðhorfi fjárfesta frá því við byrjuðum og við erum komnir með mjög trausta samstarfsaðila hvað varðar fjármögnun.“
80% í innlendri eign
LAXEY er 80% í eigu íslenskra aðila og er fyrirtækið í fjármögnunarferli núna. Hallgrímur telur þó einsýnt að þessi hlutföll muni ekki að breytast að ráði. 60% af eignarhaldinu er í Vestmannaeyjum. „Auðvitað vilja Íslendingar að arðurinn af fjárfestingum hér á landi verði eftir hjá innlendum aðilum. En fram hjá því verður samt ekki litið að í mörgum tilvikum koma erlendir aðilar með gríðarlega þekkingu með sér og gera okkur kleift að ná lengra í okkar verkefni. Það er líka mikill trúverðugleiki fólginn í því að hafa aðila innanborðs eins og norska fyrirtækið Skretting, sem er leiðandi aðili í fóðurframleiðslu, Seaborn, sem er einn stærsti söluaðili heims á laxi, og Blue Future Holding, sem eru í eigu eiganda AquaGen. Þetta eru afar traustir aðilar á okkar hluthafalista sem hafa lagt mikið af mörkum til að byggja upp trúverðugleika á verkefnið og hafa opnað lokaðar dyr á mörgum sviðum.“
Sláturhúsið tekur á sig mynd
Í seiðaeldisstöð LAXEY er afar þróað vatnsendurnýtingarkerfi sem tryggir að starfsemin þarf ekki mikið vatn. Auk þess er í stöðinni búnaður sem síar sjó og býr til hreint vatn. Með þessum búnaði getur stöðin framleitt meira vatn en hún þarf til rekstursins. Þá verða lagðir tveir stórir sæstrengir fyrir raforku til Vestmannaeyja á þessu ári sem gjörbreytir afhendingaröryggi á raforku til Vestmanneyinga og tryggir grundvöll svona iðnrekstrar til lengri tíma litið. Í fyrsta fasa landeldisstöðvarinnar voru fjármögnuð þessi átta 5.000 rúmmetra ker úr forsteyptum einingum sem eru nú að verða tilbúin til notkunar.
Alls er þetta fjárfesting upp á um tólf milljarða króna með tilheyrandi búnaði. Til að nefna einhver viðmið má minna á að nýtt skip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF, kostaði þjóðina 5,3 milljarða króna. Í Viðlagafjöru eru önnur sex ker sem eru 900 rúmmetrar hvert. Fyrsti fiskurinn mun fara í stóru 5.000 rúmmetra tankana í þessari viku. „Við erum núna í fyrsta fasa einnig að reisa sláturhús í Viðlagafjöru sem afkastar 15 þúsund tonnum á ári. Áætlað er að það verði tekið í notkun seinna á þessu ári. Þetta þýðir að við ætlum að slátra fiskinum sjálfir. Með þessu tryggjum við að gæði vörunnar er á okkar ábyrgð alveg frá hrognum þar hún berst kaupanda sem tilbúin afurð,“ segir Hallgrímur. Hann bendir á að margt sé verið að gera í fyrsta sinn hér á landi í uppbyggingu landeldis. Stórskala framleiðsla á laxi á landi eigi sér ekki langa sögu. Sumir framleiðendur velji að sjá sjálfir um slátrunina meðan aðrir leita þeirrar þjónustu annað. „Við sjáum að við getum gert þetta með mjög hagkvæmum hætti. Það fellur líka vel að okkar reynslu úr sjávarútvegi að vinna sjálfir vöruna og koma henni í hendur neytenda. Það er einn af okkar styrkleikum.“

Allt að 98% yfirburðafiskur
Að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til og unnt verði að fjármagna næstu áfanga má gera ráð fyrir að yfir 100 manns muni starfa við framleiðslu á laxi hjá LAXEY þegar fyrirtækið er komið í fullan rekstur. Það gæti þó einnig ráðist af því hve mikil vinnsla verði á fiskinum sem fyrirtækið slátrar. Nú er gengið út frá því að helsta varan fyrsta kastið verði svokallaður „head-on-gutted“ sem er slægður fiskur með haus. Hallgrímur segir að þetta sé algengasta varan í laxaiðnaðinum á heimsvísu. Í Noregi skiptist hún í tvo flokka, þ.e. „superior“ fiskur sem er gallalaus. Á honum eru engin sár eða sjáanlegar skemmdir. Hinn flokkurinn er „production“ fiskur sem er þá með sjáanlega galla. „Kosturinn við laxeldi á landi er mjög hátt hlutfall af „superior“ fiski sem gefur ákveðið forskot. Hlutfallið hefur verið allt upp í 98% af superior í eldinu. Við höfum lagt mesta áherslu á líföryggi og sjúkdómavarnir í okkar hönnunarferli. Seiðaeldisstöðin notar lítið ferskvatn og líföryggið er á háu stigi. Við flytjum fisk úr seiða eldisstöðinni eingöngu með okkar eigin tækjum út í Viðlagafjöru til áframeldisins. Það er því engin sameiginleg notkun á flutningatækjum sem gæti skapað veikleika í líföryggi. Í Viðlagafjöru notum við jarðsjó úr borholum sem á að vera laus við fiskisjúkdóma og sníkjudýr auk þess sem allir tankar eru undir þaki. Það tryggir mjög hátt líföryggi og líka tiltölulega streitulausar aðstæður fyrir fiskinn. Hann verður ekki fyrir áhrifum frá fugli, veðrabrigðum eða öðrum umhverfis breytingum.“
Þekking úr fiskvinnslu nýtt
LAXEY útilokar ekki til lengri tíma litið að meiri vinnsla verði á laxi sem fyrirtækið framleiðir. Fyrstu árin verður stefnan þó sú að skala upp framleiðsluna og ná upp stærðarhagkvæmni. Hallgrímur segir að til framtíðar litið verði óneitanlega tækifæri fyrir þann hóp sem stendur að fyrirtækinu núna að nýta reynslu sína úr fiskvinnslu til þess að stefna inn á áhugaverða markaði fyrir unnar laxaafurðir. Það gæti verið flakavinnsla og jafnvel eitthvað fleira. Markaðir fyrir lax á heimsvísu virðast vera því sem næst óseðjandi. Hallgrímur segir að eitt af því sem styðji uppbyggingu á þessu sviði á Íslandi sé það mat erlendra greiningaraðila að vöxtur í framboði muni ekki halda í við vöxt í eftirspurn. Markaðurinn sé með öðrum orðum að stækka hraðar en iðnaðurinn. Það gefi góð fyrirheit um að verð á laxi verði áfram hátt og samkeppnishæft. „Annað sem styður að fjárfest sé í þessum iðnaði á Íslandi eru þær náttúruauðlindir sem eru kjarninn í þessari starfsemi.

„Við erum á þessu hitastigsbelti sem er vænlegt til laxeldis. Við erum með borholujarðsjó sem er mikil auðlind og stuðlar að meira sjúkdómaöryggi en á flestum öðrum stöðum í heiminum og svo höfum við aðgang að grænni orku. Nái markmið okkar og annarra sem eru í landeldi fram að ganga getur það skilað sambærilegum verðmætum og þorskstofninn gerir og þá undanskil ég sjókvíaeldið. Að mínu mati eiga stjórnvöld að leggja sig virkilega fram um að greiða götu uppbyggingar landeldis. Hún getur skipt miklu máli fyrir nærsamfélagið og stóru myndina á Íslandi.“