Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) náð samkomulagi um að takmarka opinbera styrki í sjávarútvegi. Samkomulagið gengur út á að banna styrki til skaðlegra veiða, þ.e.a.s. ólöglegra, óskráðra og óstýrðra veiða.

Samkomulagið tekur þó ekki gildi fyrr en tvö af hverjum þremur aðildarríkjum stofnunarinnar hafa staðfest það heima fyrir, en það var undirritað 17. júní síðastliðinn af viðskiptaráðherrum allra 164 aðildarríkjanna. Þar með er formlega lokið tveggja áratuga löngu og oft erfiðu samningaferli.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna segir ólöglegar, óskráðar og óstýrðar veiðar stundaðar í stórum stíl víða um heim, einkum á hafsvæðum þar sem stjórnun veiða er ábótavant. Þar er helst um að ræða úthafsvæði utan lögsögu einstakra ríkja, og einnig innan lögsögu ríkja sem hafa ekki haft burði til að halda uppi virku eftirliti með veiðum.

Veikleikar nýttir

Veikleikar stjórnvalda eru óspart nýttir til að komast fram hjá reglum og afurðirnar geta ratað inn á markaði víða um heim.

Samkomulag WTO á að koma í veg fyrir að einstök ríki styrki sérstaklega veiðar af þessu tagi. WTO-reglur um styrki til sjávarútvegs hafa reyndar verið í gildi, en þær reglur hafa einkum snúist um samkeppnisstöðu fyrirtækja frekar en skaðleg áhrif veiðanna á lífríkið í hafinu. Með nýju reglunum á að taka á því ásamt að styrkja stöðu fátækari ríkja gagnvart voldugri ríkjum sem ekki hafa vílað fyrir sér að styrkja eigin flota til stórtækra veiða í lögsögu hinna fátækari.