Wisefish, fyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir sjávarútveg, kynnti fiskeldislausn sína á Seafood Expo Global sjávarútvegssýningunni í Barcelona í síðustu viku. Lausnin er hönnuð til að auka skýrleika, skilvirkni og sjálfbærni í fiskeldi og er sögð marka framfaraskref fyrir eldisfyrirtæki um allan heim.

Lausn Wisefish byggir á Microsoft Dynamics 365 Business Central og gerir fyrirtækjum kleift að tengjast og umbreyta rauntímagögnum til að styðja við hagnýtar aðgerðir í virðiskeðjunni, að því er segir í fréttatilkynningu frá Wisefish. Lausnin samþættir fyrirliggjandi fiskeldishugbúnað og sækir gögn um lífmassa, fóður, lyf og umhverfisáhrif sem veitir skýran fjárhagsrekjanleika frá hrognum til viðskiptavinar.

„Við þróuðum þessa lausn vegna vaxandi umfangs fiskeldis,“ segir Yngvi Halldórsson, forstjóri Wisefish. „Eldisfyrirtæki þurfa meira en gögn – þau þurfa skýrleika með skalanlegum og áreiðanlegum hætti. Við vissum að Wisefish gæti samþætt upplýsingar úr virðiskeðju eldis frá ólíkum kerfum og boðið upp á eina lausn til að bæta skilvirkni og sjálfbærni.”

Lausnin dreifir beinum og óbeinum kostnaðarliðum, þar á meðal fóður- og launaliðum, niður á hverja kynslóð fiska. Þannig er hægt að rekja, meta og bókfæra lífmassa með mikilli nákvæmni. Auk þess býður lausnin upp á kolefnisbókhald, sem gerir fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að greina umhverfisáhrif sín og fylgja síbreytilegum reglugerðum.

„Fiskeldislausnin er nýjasta framlag Wisefish í þeirri vegferð að einfalda og stafræntvæða virðiskeðju sjávarútvegsfélaga með stöðluðum og skalanlegum hætti. Lausnin byggir að stórum hluta á sterkum grunni sem hefur verið í þróun með sjávarútvegsfélögum í yfir 30 ár,“ segir í fréttatilkynningunni.